top of page

Lífsgæðakönnun hjá körlum í 24 Evrópulöndum um krabbamein í blöðruhálskirtli

Uomo, evrópusamtök karla með krabbamein í blöðruhálskirtli framkvæmdi á árinu 2019 könnun meðal karla sem hafa fengið blöðruhálskrabbamein, þar sem næstum 3.000 karlmenn frá 24 löndum tóku þátt. Niðurstöður sýna að lífsgæði karla með blöðruhálskirtilskrabbamein hafa orðið fyrir meiri áhrifum en áður hafði verið talið. Kynferðisleg röskun er meiriháttar og neikvæðar afleiðingar af meðferðum á blöðruhálskirtli s.s. þreyta, þvagleki, svefnleysi og þunglyndi eru aðrir mikilvægir þættir. Karlar sem eru á annarri eða síðari meðferðum á krabbameini í blöðruhálskirtli sem hefur tekið sig upp, eru með verri stöðu en mælingar hafa áður sýnt.

Þar sem þeim körlum sem lifa af krabbamein í blöðruhálskirtli fjölgar stöðugt, ættu sjúklingar, heimilislæknar og almenningur að vera vel upplýst um þarfir þeirra til að bæta þeirra lífsgæði. Krabbamein í blöðruhálskirtli og meðferð við því hefur mikil áhrif á karlmenn, bæði líkamlega og tilfinningalega. Þetta getur haft veruleg áhrif á þeirra daglega líf, vinnu, félagslíf og kynhneigð. Þetta getur líka haft veruleg áhrif á maka og aðra fjölskyldumeðlimi.

Sjúklingar þurfa að afla sér góðra upplýsinga um skaðlegar aukaverkanir af meðferð sem áætlað er að fara í. Þeir þurfa að geta tekið ákvörðun byggt á eigin forsendum og óskum (aðlagað að eigin samþykki, menningu og samfélagslegum væntingum).

Ef sjúklingar hafa engin einkenni um vaxandi krabbamein í blöðruhálskirtli geta þeir venjulega haldið áfram með sínar daglegu athafnir. Hins vegar geta þeir haft áhyggjur af sínum horfum og fundið fyrir andlegu álagi og þunglyndi. Ef þeir sem lifa af krabbamein í blöðruhálskirtli ætla eiga von á framförum þurfa þeir oft aðstoð frá fjölskyldu, vinum og/eða faglegum aðilum til að sinna sínum daglegu störfum. Eftir fyrstu eða aðra meðferð, svo sem geislameðferð eða lyfjameðferð, munu margir að öllum líkindum verða þreyttir eða veikir og gætu þurft að hætta að sinna sínu daglega starfi um tíma. Meðferð við krabbameini í blöðruhálskirtli hefur aukaverkanir sem geta truflað daglegt líf. Algengar aukaverkanir af geislameðferð er brennandi sársauki við þvaglát, tíðni þvagláta og erting við endaþarm. Brottnám blöðruhálskirtils getur valdið streitu, þvagleka og ristruflunum (getuleysi), sem einnig getur tengst geislameðferð. Yngri sjúklingar með krabbamein í blöðruhálskirtli þurfa síðan að vera vel upplýstir um núverandi varðveislutækni í frjósemi.


Hormónahvarfsmeðferð getur haft alvarlegar aukaverkanir s.s. beinþynningu, blóðleysi, hitakóf, ristruflanir, minnkun á kynhvöt, tap á vöðvamassa, eymsli í brjóstum, vöxt á brjóstvef, hnignun í vitrænni virkni, þunglyndi, þyngdaraukningu, efnaskiptabreytingar og hefur í för með sér aukna hættu tengt hjarta- og æðakerfi. Það væri mjög gagnlegt að framkvæma fleiri rannsóknir á aukaverkunum í tengslum við blöðruhálskirtilskrabbamein. Aukaverkanir af meðferðum eða sú staðreynd að sjúklingar finni fyrir miklum veikindum eða þreytu getur gert þeim erfitt fyrir að taka þátt í félagsstarfi. Þetta getur skapað einmanaleika og/eða einangrað þá frá öðrum.


Hlutverk stuðningsfélaga er lykilatriði í að veita stuðning og ítarlegri upplýsingar um að takast á við blöðruhálskirtlikrabbamein í tengslum við félagslega og efnahagslega erfiðleika og breytingar á lifnaðarháttum við að greinast með krabbamein. EAU gegnir sérstaklega því hlutverki í því að veita stuðningsfélögum meiri og betri upplýsingar til að vekja athygli á sérstökum þörfum þeirra sem fá krabbamein í blöðruhálskirtli.


Krabbameinssjúklingar þurfa:

  • Líkamlega, sálræna, kynferðislega og næringarfræðilega endurhæfingu

  • Læra að takst á við síðbúin áhrif af meðferð, með sérstöku tilliti varðandi efnaskipti

  • Stuðning við að snúa aftur til starfa eftir meðferð

Margir miðaldra karlar í Evrópu og Norður-Ameríku eru þekktir fyrir að viðhalda ekki heilbrigðum lífsstíl. Ef þeir eru of þungir við greiningu, er mikilvægt að taka upp lífsstílsbreytingar, fyrir og eftir meðferð og leggja áherslu á hollt mataræði og reglulega líkamsrækt. Það eru að koma meiri og meiri upplýsingar um að hreyfing geti hjálpað körlum með krabbamein í blöðruhálskirtli við að draga úr aukaverkunum og að það bæti þeirra lífsgæði. Þess vegna er líklegt að líkamsrækt og lífsstílsaðlögun geti skipt miklu máli fyrir karla með krabbamein í blöðruhálskirtli eins fljótt og mögulegt er eftir greiningu.


Eftir meðferð við krabbameini í blöðruhálskirtli, þarf að setja PSA próf og endaþarmsskoðun upp í virkt framhaldseftirlit. Eftirfylgni er mikilvæg til að kanna almenna heilsu, til að takast á við aukaverkanir af meðferðum, til að fylgjast með endurkomu á krabbameini í blöðruhálskirtli og að fylgjast með öðrum tegundum krabbameina.


Öll skref í réttri eftirfylgni ættu að vera inn í sérsniðinni krabbameinsáætlun um blöðruhálskirtilskrabbamein, ætlað að styrkja hvern sjúkling og ganga þarf úr skugga um að allir sjúklingar hafi aðgang að nauðsynlegum upplýsingum til að hafa góða stjórn á sínu lífi eftir meðferð.

56 views0 comments
bottom of page