Karlar eru tregari til að leita sér lækninga en konur. Slæm heilsa passar ekki við karlmennskuímyndina. Engin sérgrein fjallar um sjúkdóma karla með hliðstæðum hætti og sérgreinin kvensjúkdómar um konur. Báðar greinarnar eiga sér nöfn á latínu: andrologia er fræðin um karla og gynekologia er um konur.
Umræðan um karlasjúkdóma sem sérgrein verður þó sífellt fyrirferðarmeiri innan heilbrigðisgeirans, eins og fram kom á ráðstefnunni World Congress on Men's Health, sem haldin var í Vínarborg í október síðastliðnum og var sú þriðja sem haldin er um karlaheilsu. Fyrirhugað er að halda þá fjórðu í Flórída í Bandaríkjunum á næsta ári. Sigurður Gunnarsson, heilsugæslulæknir í Búðardal, sótti ráðstefnuna vegna mikils áhuga á heilsufari karla og sjúkdómum, sem einkum gera vart við sig meðal þeirra. Þennan áhuga útskýrir hann á eftirfarandi hátt:"Kvensjúkdómalæknir þarf að kunna margt fyrir sér. Hann þarf að vera allgóður skurðlæknir og geta unnið hratt við keisaraskurð. Hann þarf að kunna fyrir sér í lyflækningum og vera vel að sér um hormóna. Hann þarf að vera góður geðlæknir og sálfræðingur, bæði er varðar samlíf kynja og þá geðsjúkdóma sem geta tengst kvensjúkdómum og fæðingunni, frægasta og erfiðasta dæmið er fæðingarþunglyndi. Hjá körlum dreifast þessir þættir á margar sérgreinar. Þvagfæraskurðlæknar koma mikið við sögu. Sumir lyflæknar eru áhugasamir um andrologiu og einnig húðlæknar, sem koma að greininni, þar eð kynsjúkdómar eru flokkaðar undir sömu sérgrein. Sumir geðlæknar eru einnig mjög áhugasamir um vandamál karla. Jafnvel fyrrnefndir kvensjúkdómalæknar geta einnig sinnt körlum, einkum þeir sem eru sérfróðir um ófrjósemi. Heimilislæknirinn sameinar alla þessa þætti, þar sem hann reynir eins og hægt er að vera vel að sér um vandamál beggja kynja og það er þannig sem ég kem að þessu," sagði Sigurður.
Á heimsráðstefnunni í Vínarborg var fyrst rætt almennt um heilsufar í heiminum, meðal annars í þróunarríkjunum og þá einkum í Afríku. "Þar hefur ástand að sumu leyti versnað, einkum vegna eyðni," sagði Sigurður. "Fólk er illa upplýst og mikið ójafnræði er milli kynja. Karlar stunda mikið kynlíf utan hjónabands og konur hafa lítið um það að segja. Verjur eru ekki í tísku og lítið notaðar. Eyðnismit er mælt í tugum prósenta þar sem ástandið er verst. Í Evrópuríkjum eru vandamálin allt önnur, en þar hafa orðið framfarir er varða hjarta- og æðasjúkdóma. Hár blóðþrýstingur og blóðfita eru meðhöndluð. Tíðni maga- og ristilkrabba fer lækkandi og tíðni lungnakrabba lækkar hjá körlum. Hjá konum hefur tíðni reykinga sums staðar heldur vaxið og á Írlandi stefnir í jafna tíðni lungnakrabba eftir áratug. Lífslíkur kynja eru mismiklar og lifa konur í flestum löndum sex til sjö árum lengur en karlar. Þessi munur var minni fyrir hálfri öld og verið getur að hann minnki aftur. Í Rússlandi er munur kynja enn meiri vegna mikillar drykkju karla. Meðalævi karla þar í landi er aðeins um 57 ár." Blöðruhálskirtillinn Blöðruhálskirtillinn er einungis í karlmönnum og þroskast í þeim um kynþroskaaldur fyrir áhrif hormóna. Hann liggur neðan við botn þvagblöðrunnar og umlykur blöðruhálsinn og efsta hluta þvagrásarinnar. Kirtillinn myndar mestan hluta sæðisvökvans sem hefur það hlutverk að flytja, næra og vernda sæðisfrumurnar. Á Íslandi greinast ár hvert hátt á annað hundrað karlar með krabbamein í blöðruhálskirtli og um 40 látast úr sjúkdómnum. Tveir af hverjum þremur eru komnir yfir sjötugt þegar meinið greinist og sjúkdómurinn er mjög sjaldgæfur hjá karlmönnum undir fimmtugu. Í fræðsluriti Krabbameinsfélagsins, útgefnu árið 1998, kemur meðal annars fram að fjöldi nýrra tilfella af blöðruhálskirtilskrabbameini, miðað við 100 þúsund karla (nýgengi), hafi fjórfaldast frá árinu 1956, meðal annars vegna bættra greiningaraðferða, en dánartíðnin hefði rúmlega tvöfaldast á sama tíma.Í tímaritinu The Sunday Times Magazine birtist fyrr á þessu ári athyglisverð grein sem fjallar um þetta vandamál meðal breskra karlmanna. Þar er meðal annars rakin saga manns, sem lifði heilbrigðu lífi og var fullur af lífsþrótti er hann fyrir tilviljun greindist með hratt vaxandi krabbamein í blöðruhálskirtli. "Aðeins duttlungafull örlög björguðu honum frá bráðum bana. Tíu þúsund manns ár hvert eru ekki svo heppnir," segir meðal annars í inngangi greinarinnar. Þar segir ennfremur að 90% af breskum karlmönnum hafi ekki hugmynd um hvað blöðruhálskirtill sé, hvað þá um hlutverk hans í líffærastarfsemi karla. Og greinarhöfundur varpar fram þeirri spurningu hvernig á því standi að of margir greinist of seint, þrátt fyrir að blöðruhálskrabbi sé algengasta krabbamein breskra karla.
Á heimsráðstefnunni um karlaheilsu voru að vonum miklar umræður um krabbamein í blöðruhálskirtli enda hefur tilfellum fjölgað hin seinni ár, meðal annars vegna þess að meðalaldur hefur lengst, en margir karlmenn geta fengið sjúkdóminn á efri árum, einkum eftir áttrætt.
"Sjúkdómurinn finnst til dæmis oftar en ekki við krufningu aldraðra karla, sem hafa dáið af öðrum orsökum," sagði Sigurður, en á ráðstefnunni kom fram að tíðni sjúkdómsins væri mismikil innan Evrópu. "Talið er að mikið kjötát sé óheppilegt hvað varðar hættu á krabba í blöðruhálskirtli, en fiskneysla og neysla á ýmsu grænmeti geti haft verndandi áhrif," sagði Sigurður ennfremur og benti á að sums staðar hefði verið reynt að taka upp skimun fyrir blöðruhálskrabba meðal annars með því að nota blóðsýnið PSA (Prostata Specific Antigen), sem þýða mætti sem sértækur blöðruhálskirtilsmótefnavaki. Eðlilegt gildi fyrir PSA er undir 2 hjá ungum mönnum en undir 4 hjá þeim elstu. Vandi við kembileit eða skimun er hins vegar sá, að bólga í blöðruhálskirtli eða góðkynja stækkun getur einnig valdið hækkun á PSA, einkum gildi á bilinu 4-10. Þreifing frá endaþarmi er einnig gagnleg rannsókn til þess að finna krabbamein, sem oftast er í aftari hluta kirtilsins og þreifast því tiltölulega vel frá endaþarmi.
"Ef grunur vaknar um krabba er hægt að taka stungusýni og fæst einnig talsverð hjálp með því að gera sónarskoðun og með nýjustu tækjum sést betur hvar blóðrás er aukin og þau svæði eru líklegri til að vera með æxlisvexti. Skimun hefur einnig þann vanda að krabbi finnst hjá þeim sem hafa vægan sjúkdóm, sem yrði þeim ekki að aldurtila. Gæti þá orsakað óþarfa skurðaðgerðir og lyfjameðferðir.
Svo er annar hluti sjúklinga með slæman sjúkdóm, þar sem erfitt er að greina krabbann nægilega snemma, jafnvel með skimun. Í þeim tilfellum breytir meðferð horfum sjúklinga ekki mikið. Að sjálfsögðu vinnst mest við að greina tiltölulega unga menn með staðbundinn sjúkdóm, sem hægt er að lækna með skurðaðgerð. Sú aðgerð er þó alls ekki vandræðalaus. Hún getur valdið þvagleka, sem oft er aðeins tímabundinn, en getur orðið varanlegur. Einnig eru ristruflanir algengar eftir aðgerð. Komið hefur í ljós að bæta má horfur eftir aðgerð með því að gefa lyf við ristruflunum (Viagra) fyrir svefn í ákveðinn tíma eftir aðgerð og virðist aukið blóðflæði og ris, sem verður í svefni, bæta stinningu til frambúðar."
Sigurður benti á að horfur sjúklinga með blöðruhálskrabba færu ekki aðeins eftir dreifingu meinsins heldur einnig eftir vefjagerð þess. "Fullorðinn maður, sem er með meinsemd út um allt, þarf ekki að vera dauðvona. Að sjálfsögðu er ekki vit í því að gera aðgerð á blöðruhálsinum þegar meinið hefur dreift sér í beinin með svokölluðum meinvörpum. Krabbamein, sem er ekki mjög illkynja, er afar háð hormónum.
Taka má eistun eða gefa lyf sem vinna gegn karlkynshormóninu testósteróni. Við það minnkar ekki aðeins risið heldur hverfur einnig löngun til kynlífs. Hins vegar geta lífsgæði orðið mikil að öðru leyti. Við það getur PSA-gildi farið úr yfir 1000 í nánast ekki neitt. Reyndar getur krabbinn breytt sér eftir nokkur ár og orðið minna hormónaháður, meingerð hans óreglulegri, frumurnar verða þá óskyldari venjulegum blöðruhálsvef og vaxa hraðar og sjúkdómurinn getur þá komið til baka. Þetta getur hins vegar tekið það langan tíma að gálgafresturinn sé nægur, ef fullorðinn maður á í hlut, sem leiðir til þess að viðkomandi getur látist úr öðrum sjúkdómi. Þannig þarf "ólæknandi" blöðruhálskrabbi ekki að vera neinn "dauðadómur", eins og meðal annars kom fram á ráðstefnunni," sagði Sigurður.
"Eitt af mögulegum einkennum krabba í blöðruhálskirtli er þvagtregða. Sem betur fer er góðkynja stækkun kirtilsins mun algengari ástæða fyrir þvagtregðu og fyrr á ferðinni en krabbinn, sem oftast greinist á áttræðisaldri. Frá fimmtugu til sjötugs er góðkynja stækkun algengari. Stækkunin er mest í þeim hluta sem umlykur þvagrásina en ekki í aftasta hlutanum þar sem krabbinn kemur oftast fyrir. Þannig getur tiltölulega lítil stækkun haft áhrif á þvagrennslið," sagði Sigurður og bætti því við að of langt mál yrði að rekja nánar þær umræður sem urðu á ráðstefnunni varðandi stækkun á blöðruhálskirtli.
Óframfærni og þunglyndi
Það er mál manna að karlmenn almennt séu tregari til að leita sér lækninga en konur og komi þá oft seinna en æskilegt væri, og þá jafnvel stundum of seint. Að sögn Sigurðar var mikið fjallað um þetta atriði á ráðstefnunni og meðal annars rætt um erfiðleika við að ná til karla með þau úrræði sem til væru í heilbrigðiskerfinu."Margir karlar eru tregir til að leita til læknis og stundum eru þeir beinlínis reknir þangað af eiginkonu. Slæm heilsa passar ekki við karlmennskuímyndina. Enn verra verður það, ef heilsuvandinn snertir karlmennskuna sjálfa eins og risvanda eða dvínandi kynhvöt. Þetta er enn bagalegra þegar einkennið er útferð frá þvagrás eða einkenni frá eistum, þá getur tíminn skipt höfuðmáli. Sem dæmi má nefna skyndilegan verk frá eista, sem hefur snúist upp á. Þetta getur komið fyrir hjá drengjum og ungum mönnum og veldur blóðrásartruflun og eistað deyr ef ekkert er að gert.
Karlmenn eiga einnig erfiðara með að leita sér lækninga vegna þunglyndis og svo virðist sem oft sé erfiðara að greina þunglyndi hjá körlum en konum. Karlmenn eiga það nefnilega til að "leysa" þunglyndisvandamálið með því að hella sér út í drykkjuskap, og þá geta þeir orðið pirraðir og erfiðir í umgengni. Slík hegðun gerir það að verkum að þeir eru afgreiddir sem "fyllibyttur" fremur en þunglyndissjúklingar, enda þunglyndið falið með þessum hætti. Þunglyndi karla er því oft bráðara og hættulegra, enda eiga þeir til að valda sjálfum sér og öðrum skaða í slíku ástandi og lenda þá oft í útistöðum við lögreglu og félagsmálayfirvöld, áður en þeim er komið í hendur geðlækna."
Sigurður benti ennfremur á að þunglyndi og áfengisvandi eða fíkniefnavandi væru að jafnaði tengdari vandamál hjá körlum en konum. Þá væri það tilviljunum háð hvort þunglyndisgreiningin væri notuð eða hvort vandinn væri alfarið flokkaður sem fíkn, enda alþekkt að fíkn ylli einnig þunglyndi og ekki alltaf auðvelt að átta sig á hvort kæmi á undan hænan eða eggið! "Tóbaksfíkn virðist vera á undanhaldi hjá körlum og rannsóknir sýna að þeim gengur mun betur en konum að losna við ávanann," sagði Sigurður. Stinningarvandi Risvandamál er sjálfsagt eitt viðkvæmasta heilsufarsvandamál sem karlar eiga við að glíma. Oft fara þeir með slíkt eins og mannsmorð og eiga erfitt með að ræða það við sína nánustu, hvað þá lækna. Á sama hátt og þunglyndi getur valdið risvandamáli getur vandamálið sjálft valdið þunglyndi. En orsakanna er víða að leita.Með aldrinum geta ýmsir algengir kvillar valdið því að limurinn nái ekki að harðna nógu mikið til að gera samfarir mögulegar. Hörðnun slagæða, hár blóðþrýstingur, heilablóðfall, hjartasjúkdómar, hjartaáfall, sykursýki og sköddun kynfæra geta valdið þessum vanda. Ef um krabbamein er að ræða, þar sem sjúklingurinn gengst undir uppskurð, lyfjameðferð eða geislameðferð, getur það einnig valdið erfiðleikum í kynlífi. Aðrir sjúkdómar eins og nýrnaveiki eða lifrarsjúkdómur geta orsakað vanda, einkum ef þessi líffæri fara að gefa sig.
Framangreindar upplýsingar koma meðal annars fram í bæklingi sem liggur frammi á heilsugæslustöðvum og ber heitið Leiðbeiningar til karlmanna um velgengni í kynlífinu. Þar segir ennfremur að meira en helmingur allra manna, sem komnir eru yfir fertugt, hafi átt í erfiðleikum með að ná og viðhalda stinningu. Á Íslandi er talið að meira en 20 þúsund menn kunni að eiga við þennan vanda að stríða. Meðal þess sem getur orsakað erfiðleika við stinningu má nefna hækkandi aldur, veikindi, slys, reykingar, uppskurði, áfengi og lyf. Njóttu lífsins er samheiti á bæklingum sem gefnir hafa verið út til að leiðbeina karlmönnum með risvandamál vegna sjúkdóma. Í einum þeirra, sem sérstaklega höfðar til karla á aldrinum 40 ára til 70 ára, segir að augljóst samhengi sé á milli aldurs og stinningarvanda, en hann sé þó ekki eðlileg og óumflýjanleg afleiðing þess að eldast. Miklu fremur sé um að ræða afleiðingu sjúkdóma og aðstæðna sem fylgja hækkandi aldri. "Hér er æðakölkun mikilvægt atriði. Við æðakölkun þrengjast æðar og verða ekki eins teygjanlegar og áður. Því verður blóðstreymið minna. Æðakölkun hefur áhrif á allar æðar í líkamanum, líka æðarnar í limnum. Minnkandi blóðstreymi í lim hefur í för með sér vanda við stinningu." Staðreyndin er hins vegar sú að það má meðhöndla ristruflun hjá langflestum. Margar leiðir til meðhöndlunar eru fyrir hendi og því engin ástæða til að sætta sig bara við að búa við þessi vandkvæði. Rislyf Á heimsráðstefnu um karlaheilsu er vitaskuld óhjákvæmilegt að ræða stinningarvandamál, enda var það gert á ráðstefnunni í Vínarborg, ekki síst með hliðsjón af þeim úrræðum sem fyrir hendi eru."Á síðustu árum hafa komið mjög virk lyf við ristruflunum," sagði Sigurður þegar þetta vandamál bar á góma. "Fyrst á markaði var Viagra fyrir um fimm árum. Nú hafa bæst á markaðinn tvö ný lyf úr sama flokki. Cialis skilst hægar úr líkamanum og getur virkað í marga daga hjá þeim sem eru með vægar ristruflanir, sem algengar eru meðal miðaldra einstaklinga. Ein 20 milligramma tafla dugar þá flestum í hálfa eða heila viku. Hjón eru þá ekki bundin við að skipuleggja kynlíf sitt fyrirfram. Áhrifin koma aðeins, ef kynferðisleg örvun verður, og engin þörf er á því að taka töfluna sama kvöld og fólk hefur samfarir. Þetta hefur orðið til þess að Cialis nýtur vaxandi vinsælda hjá körlum sem eru að þreifa sig áfram með rislyf. Viagra er hins vegar það lyf sem hefur mestu reynslu og rannsóknir að baki og er enn langmest notað af þessum lyfjum eða um 9 töflur á sekúndu í heiminum. Þriðja lyfið er einnig komið á markað sem heitir Levitra. Það er öllu sérhæfðara og mögulega örlitlu öflugra en hin tvö fyrrnefndu. Hentar þá helst sykursjúkum og eldri mönnum, sem næstum þurfa að "rísa upp frá dauðum", ef svo má að orði komast. Hefur sama galla og Viagra að virka fremur stutt.
Öll þrjú lyfin má alls ekki taka með "sprengilyfjum", hvorki þeim skammvirku eins og Nitromex- og Glytrin-úða né langvirkum nítrötum eins og Sorbangil eða Imdur (samheitalyf Ismo og Mónít-L) og forðaplástrinum Diskotrine.
Lyflæknar á ráðstefnunni lögðu mikla áherslu á að útiloka bæri hjartasjúkdóm hjá þeim sem kvörtuðu yfir ristruflunum. Álíka stórar æðar ættu hlut að máli í getnaðarlim og í kransæðum. Þannig getur sjúklingur, sem finnur fyrir ristruflun, fengið hjartadrep tveimur til þremur árum síðar." Sigurður benti jafnframt á að hár blóðþrýstingur og sykursýki gætu einnig orsakað ristruflun, sem gæti verið fyrsta einkenni sjúkdómsins. Hollt fæði og regluleg hreyfing reynist stuðla gegn getuleysi alveg eins og gegn hjartasjúkdómum. Hjartasjúkdómur þyrfti hins vegar ekki að útiloka notkun rislyfja, nema fyrrgreinda takmörkun á notkun nitrat-lyfja.
"Blóðrásartruflanir eru helsta ástæða dvínandi getu," sagði Sigurður ennfremur. "Risið getur þó einnig truflast vegna ýmissa annarra ástæðna. Bólgur og verkir í kynfærum, eins og við þráláta bólgu í blöðruhálskirtli, draga einnig verulega úr getu, að minnsta kosti tímabundið meðan verkir eru verulegir og staðbundin óþægindi. Blöðruhálskirtilsstækkun og þvagteppa sem henni tilheyrir er einnig óhagstæð fyrir risið. Lágt testósterón veldur lakari stinningu, en dregur þó ekki síður úr kynhvöt." Sigurður sagði að skoðanir manna á ráðstefnunni hefðu verið mjög skiptar varðandi umfang hormónameðferðar og hvar draga ætti mörkin.
Hormónaframleiðsla karla minnkar nokkuð með aldri, en aðallega vegna sjúkdóma, sem verða tíðari með aldrinum. Hjá þeim einstaklingum getur testósterónið fallið talsvert, tímabundið eða varanlega. "Karlkyns tíðahvörf eru hins vegar ekki til," sagði Sigurður varðandi þetta atriði. "Karlar geta haldið áfram að framleiða sæði til æviloka. Við tíðahvörf hætta hins vegar eggjastokkar kvenna framleiðslu eggja og þá hættir hormónaframleiðsla þeirra líka. Dálítið estrógen er þó framleitt í nýrnahettum og í fituvef. Offita, sykursýki, hreyfingarleysi, hjartasjúkdómar og sjúkdómar í blöðruhálskirli geta dregið úr magni testósteróns. Mjög mikill munur getur verið milli einstaklinga varðandi testósteróngildi. Áttræður karl getur verið með mun hærra magn en annar maður á besta aldri. Félagslegir þættir eins og streita og vinnuálag geta leitt til lægra testósteróns hjá viðkomandi. Samlífsvandi í hjónabandi getur einnig haft neikvæð áhrif og þannig mætti lengi telja."
Á ráðstefnunni var rætt um að ofát og hreyfingarleysi væri vandamál í vestrænum löndum og hefði neikvæð áhrif á heilsufar fólks. "Í stað þess að menn taki sig varanlega á og breyti lífsháttum til hins betra stunda þeir megrunarkúra, sem oft eru fitandi þegar til lengri tíma litið," sagði Sigurður og bætti því við að af nógu væri enn að taka í þessum efnum. Hann kvaðst vona að allur almenningur kynnti sér þessi mál. "Þrátt fyrir framfarir í lyfjameðferð sannast enn og aftur að hollir lífshættir skila sér í bættri heilsu."
Eftir Svein Guðjónsson - https://www.mbl.is/greinasafn/grein/769760/
Kommentare