top of page

Átak þarf í skimun fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli.



Á nýliðnum vikum sló tveim fréttum í fjölmiðlum saman í huga mínum.  Annars vegar var frétt á heimasíðu Krabbameinsfélags Íslands þann 12. nóvember um að heilbrigðisráðherra hefði fallist á lækkun gjalds fyrir skimun fyrir krabbameini í brjóstum niður í 500 kr.  Allar íslenskar konur óháð efnahag hafa nú aðgang að skimun og þær eru kerfisbundið hvattar til að láta skima brjóst sín reglulega. Þetta eru gleðitíðindi og okkur öllum fagnaðarefni.


Seinni fréttin birtist í breska dagblaðinu Guardian sunnudaginn 20. nóvember.  Sagt er frá því að Chris Hoy, fjórfaldur handhafi Olympíugullverðlauna í hjólreiðum, hafi greinst með 4.stigs krabbamein í blöðruhálskirtli og með dreifð mein út frá því. Chris Hoy er 48 ára gamall.  Hann segir lækna sína gefa sér 2-4 ár.   Bæði faðir hans og afi höfðu fengið krabbamein í blöðruhálskirtil. Ef Chris hefði frá 40 ára aldri farið í reglulega skimun vegna erfðatengrar áhættu á blöðruhálskirtilskrabbameini er líkur á að mein hans hefði fundist meðan það var enn læknanlegt eða viðráðanlegt.


Og hérna komum við að kjarna málsins. Brjóstakrabbamein kvenna og blöðruhálskirtilskrabbamein karla eru algengustu krabbameinin.  Á Íslandi er skimað kerfisbundið fyrir brjóstakrabbameini en ekki fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli.


Ástæðan er sú að skimun fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli hefur til skamms tíma verið litin hornauga og jafnvel verið mælt gegn henni bæði hér á landi og í mörgum nágrannalöndum okkar vegna ónákvæmni greinitækjanna, hættu á oflækningum og kostnaðar sem af þeim hlýst.  Þessi viðhorf eru nú víkjandi vegna framfara í greiningu og vegna félagslegra réttlætissjónarmiða.


Sem dæmi um þessa viðhorfsbreytingu er að undir lok síðasta árs (2023) samþykktu heilbrigðisráðherrar allra landa Evrópusambandsins að bæta krabbameini í blöðruhálskirtli á lista þeirra krabbameina sem mælt er með að skimað verði fyrir.  Sá fyrirvari er að vísu í samþykktinni að aðildariki Evrópusambandsins skuli á grundvelli frekari rannsókna “meta hagkvæmni og skilvirkni reglulegrar skimunar fyrir blöðruhálskirtilskrabbameini með PSA mælingum og með segulómskoðun (MRI) sem framhaldsrannsókn.”  (1)  


Svíar voru skrefi á undan öðrum Evrópuþjóðum. Þegar árið 2018 hrintu þeir af stað átaki til undirbúnings skipulegrar skimunar fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli.  Fyrstu svæðisbundnu skimunarverkefnin hófust 2020, fyrstu áfangaskýrslur voru birtar í lok síðasta árs og í mars 2024 birtist í tímaritinu European Urology samantekt um helstu lærdóma sem af verkefnunum má draga. Verkefnunum verður haldið áfram og fleiri svæðisbundin skimunarverkefni eru farin í gang.


Leit að krabbameini í blöðruhálskirtli á Íslandi í dag byggir ekki á kerfisbundinni skimun heldur er það sem kallast tækifærisbundin (opportunistic). Karlar sem þess óska fá mældan mótefnavaka frá blöðruhálskirtli (PSA) og læknar láta mæla það hjá  þeim skjólstæðingum sínum sem þeir telja ástæðu til. Þetta er allt of gisið net og allt of margir íslenskir karlar greinast of seint.  


Fyrir hönd íslenskra karla og ástvina þeirra hvetjum við í Framför heilbrigðisyfirvöld á Íslandi til að hefja undirbúning að kerfisbundinni skimun fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli hér á landi.  


Nóvember 2024

Guðmundur Páll Ásgeirsson

Sími 8222348 - gudmundurpall@framfor.is

30 views0 comments

Comments


bottom of page