top of page
Mikilvægt að
vera ekki einn
Þráinn
Þorvaldsson
thrainn_vef-copy.jpg

„Ég greindist 61 árs með blöðruhálskirtilskrabbamein. Ég gat lifað án þess að fara í meðferð en mér var ekki spáð bjartri framtíð og við sögðum engum frá þessu. Á þeim tíma var engan stuðning að fá og ég hafði engan til að tala við. Það sem veitti mér mestan stuðning var að ég fór á spjallvef í Bandaríkjunum þar sem hægt var að senda inn fyrirspurnir og menn svöruðu og veittu ráðleggingar. Ég safnaði fjölmörgum upplýsingum og menn fóru svo að fá upplýsingar hjá mér og hringja í mig. Þá fann ég að þessi stuðningur skiptir miklu máli. Bara það að einstaklingur hafi einhvern til að tala við sem er búinn að feta þessa sömu slóð léttir mjög áhyggjur þeirra.

Það má líkja þessu við það þegar þú ferð í fjallgöngu. Svo skellur á þoka. Þú ert með leiðarlýsingu og allt en veist ekkert hvert þú átt að fara. Þá kemur einhver einstaklingur upp að hliðinni á þér í þokunni og segir “ég er búinn að fara þetta ég veit hver leiðin er. Ég skal hjálpa þér. Ég skal styðja þig og þú getur spurt mig spurninga sem þú vilt.” Þetta er svona sem jafningjafræðslan og Stuðningsnetið er. Þú hefur einhvern við hliðina á þér, einhvern sem þú getur talað við, sem getur létt af þér áhyggjum og stutt þig áfram í gegnum þokuna.

Ég held að flestir sem greinast með blöðruhálskirtilskrabbamein hverfi inn í neikvæðar hugsanir. Þeir hugsi ekki um að það séu jafnvel jákvæðir hlutir sem að gerast kannski í kjölfarið. Þetta breytir þínu lífi og lífsviðhorfum. Þannig að ef þú talar við aðra þá mun viðkomandi kannski opna fyrir þér þann heim að það er ekki allt svart í kringum þetta.“

bottom of page