top of page

Stuðningshópur karla stofnaður á Austfjörðum

Hrefna hjá Krabbameinsfélagi Austfjarða hafði samband við okkur hjá Framför og óskaði eftir stuðningi við að fara af stað með stuðningshóp fyrir karla á Austfjörðum. Þar sem eitt af stærstu áherslumálunum hjá Framför er að eiga samstarf við aðildarfélög Krabbameinsfélagsins um að efla karlastarf á landsbyggðinni, var vel tekið í þetta. Við stungum upp á dagsetningunni 8. október og eftir að Hrefna hafði rætt við nokkra aðila, var þessi dagsetning ákveðin.


Þráinn Þorvaldsson stjórnarformaður og Guðmundur G. Hauksson framkvæmdastjóri hjá Framför flugu síðan til Egilsstaða að morgni þessa föstudags og keyrðu yfir á Reyðarfjörð. Þar var Hrefna með nokkrum góðum stuðningsaðilum að leggja lokahönd á að gera tilbúið nýtt húsnæði fyrir Krabbameinsfélag Austfjarða. Þarna fréttum við að þessi viðburður sem var stofnun á nýjum stuðningshópi fyrir karla með krabbamein, væri í raun fyrsti viðburðurðurinn í þessu nýja og glæsilega húsnæði félagsins. Þetta gerði þennan viðburð mjög sérstakan og sérstakt gleðiefni að þessi fyrsti viðburður snerist um okkar helsta áhugamál hjá Framför, málefni karla.

Góð mæting var á fundinn og þurfti að henda upp fleiri borðum og stólum til að allir kæmust vel fyrir. Hrefna setti síðan þennan fyrsta fund hjá nýjum stuðningahópi karla með krabbamein á Austfjörðum. Síðan bauð Guðmundur G. Hauksson alla velkomna og fór lauslega yfir dagskránna sem framundan væri.


Þráinn Þorvaldsson tók síðan við og stýrði umræðu og fyrst kynntu allir sig og sögðu lítilega frá sinni stöðu, reynslu og upplifun af eigin krabbameini. Að því loknu setti Þráinn fram nokkrar spurningar og út frá því spannst áhugaverð umræða. Hér er samantekt á því helsta sem bar á góma:

 1. Sagt frá áhugaverðri og mikil eftirfylgni hjá þvagfæraskurðlækni eftir brottnám á blöðruhálskirtli.

 2. Vildu geta sent sínum lækni tölvupóst með fyrirspurnum.

 3. Áhugavert innleg um pumpu og sprautur sem hjápartæki í kynlífi.

 4. Ljósið hefur aukið sína starfsemi á landsbyggðinni.

 5. Áhugi fyrir að fá lyfjagjöf á Austfjörðum (þurfa ekki að fara suður).

 6. Þvagfæralæknar koma bara einu sinni í mánuði.

 7. Tvær blóðskilunarvélar eru komnar á Austfirði.

 8. Landsspítalinn þarf að útvista meira læknisþjónustu til Austfjarða.

 9. Sumir fá lyfjameðferð á Austfjörðum á meðan aðrir verða að fara suður.

 10. Áhugavert samstarf framundan hjá Framför við Félag þvagfærasérfæðinga á Íslandi.

 11. Fársjúkir aðilar eru keyrir á heilsugæslu í stað þess að sinna þeim heima.

 12. Erfitt að fá eftirfylgni frá læknum eftir meðferðir.

Að umræðum loknum fór Guðmundur G. Hausson framkvæmdastjóri hjá Framför yfir stöðu verkefna hjá félaginu með sérstaka áherslu á Hellirinn, félagsmiðstöð með áherslu á samfélagslegt og félagslegt umhverfi. Hann fór yfir endureisnina á félaginu, vinnu við stefnumótun og hugmyndafræði um að efla og leggja grunn að sérhæfðu þjónustu umhverfi fyrir karla á forsendum karla, uppbyggingu á starfi stuðningshópa, stefnumörkun um Vinaverkefni, uppbyggingu á tómstundahópum og vinnu við að setja upp sérhæft fræðsluumhverfi á netinu fyrir karla með krabbamein í blöðruhálskirtli, þeirra maka og aðstandendur.

Samþykkt var samhljóða að þetta væri stofnfundur á stuðningshópi karla á Austfjörðum og að stefnt yrði að því að hafa fundi mánaðarlega í framtíðinni


Hrefna Eyþórsdóttir formaður Krabbameinsfélag Austfjarða var síðan með falleg lokaorð og lýsti yfir mikilli ánægju með þennan fund og þakkaði aðilum frá Framför fyrir þeirra aðstoð við þetta.

246 views0 comments

Yorumlar


bottom of page