Hvað er PSA?
Prostate-Specific Antigen (blöðruhálskirtils-sértækur mótefnavaki), eða PSA, er prótein sem er framleitt í blöðruhálskirtlinum. PSA-mæling metur magn PSA í blóði manns. Niðurstaðan er oftast gefin upp í nanógrömmum í millilítrum blóðs. Magn PSA í blóði er oft hækkað hjá mönnum með krabbamein í blöðruhálskirtli, og prófið var upphaflega ætlað til að fylgjast með sjúkdómsþróun hjá mönnum sem þegar höfðu greinst með sjúkdóminn. Þegar menn leita læknis vegna vandamála í blöðruhálskirtli er PSA oft mælt ásamt því að kirtillinn er þreifaður. Ýmsar ástæður geta legið að baki hækkunar á PSA-gildi í blóði, flestar þeirra góðkynja. Algengasta ástæður PSA-hækkunar eru góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli og bólgur í blöðruhálskirtlinum. Ekki hefur verið sýnt fram á að bólgur eða góðkynja stækkun blöðruhálskirtils leiði til krabbameins, en krabbamein getur myndast þrátt fyrir að annar eða báðir þessir sjúkdómar séu til staðar.
Er mælt með PSA-mælingu til að skima fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli?
Þar til nýlega mæltu ýmsir læknar og læknasamtök (einkum í Bandaríkjunum) með árlegum PSA-mælingum eftir fimmtugt. Sum samtök mæltu einnig með að menn í aukinni hættu á að fá krabbamein í blöðruhálskirtil byrjuðu fyrr í PSA-eftirliti, jafnvel eftir fertugt. Eftir því sem meira eru vitað um kosti og galla PSA-mælinga hafa sum samtök farið að vara við almennri skimun með PSA-mælingu. Þrátt fyrir að ýmis önnur samtök mæli enn með PSA-skimun, þá eru flestir ásáttir um að þeir karlar sem eru að velta fyrir sér að fara í PSA-mælingu eigi fyrst að fá greinargóðar upplýsingar um kosti og áhættu við PSA-mælingu.
Hver er eðlileg niðurstaða PSA-mælingar?
Það eru engin ákveðin eðlileg eða óeðlileg gildi PSA í blóði. Áður var talið að PSA-gildi undir 4,0 ng/mL væru eðlileg, og mönnum með PSA-gildi yfir 4,0 ng/mL var ráðlagt að fara í sýnatöku úr blöðruhálskirtlinum til að athuga hvort krabbamein væri til staðar. Nýrri rannsóknir hafa þó sýnt fram á að sumir karlar með PSA-gildi undir 4,0 ng/mL geta verið með krabbamein og að margir menn með PSA-gildi yfir 4,0 eru ekki með krabbamein í blöðruhálskirtli. Að auki eru ýmsir þættir sem geta haft áhrif á PSA-gildið. Til dæmis getur PSA hækkað við bólgur í blöðruhálskirtli eða við þvagfærasýkingu. Sýnatökur og skurðaðgerðir á blöðruhálskirtli geta einnig hækkað PSA-gildið. Á hinn bóginn geta sum lyf, þ.á.m. Finasteride (Proscar, Finol) og dutasteride (Avodart), sem eru notuð við góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli, lækkað PSA-gildið. Almennt gildir þó að því hærra sem PSA-gildið er, þeim mun meiri líkur eru á að krabbamein sé að finna í blöðruhálskirtlinum. Sífelld aukning á PSA-gildi yfir lengri tímabil geta einnig verið merki um krabbamein.
Hvað ef PSA-gildið er hækkað?
Ef maður, sem ekki hefur nein einkenni um krabbamein í blöðruhálskirtli, velur að láta skima sig fyrir krabbameininu og reynist hafa hækkað PSA-gildi, er ráðlegt að mælingin sé endurtekin eftir 1-2 mánuði. Ef PSA-gildið er enn hátt við endurtekna mælingu er stundum ráðlagt að halda áfram að fylgjast með PSA-gildinu og framkvæma reglubundna þreifingu á blöðruhálskirtlinum til að fylgjast með breytingum sem gætu komið fram. Ef PSA-gildið heldur áfram að hækka eða ef hnútur finnst við þreifingu á blöðruhálskirtlinum, getur verið ráðlegt að framkvæma frekari rannsóknir til að athuga orsök hækkunarinnar. Viðbótarrannsóknir geta verið að athuga hvort þvagfærasýking sé til staðar. Einnig getur verið ráðlegt að framkvæma myndgreiningu á borð við ómskoðun eða blöðruspeglun. Ef grunur leikur á að krabbamein geti verið til staðar er ráðlegt að taka sýni úr blöðruhálskirtlinum. Þá eru vefjasýni tekin með því að nál er stungið ómstýrt um endaþarm inn í blöðruhálskirtilinn. Það er yfirleitt gert í staðdeyfingu. Stundum eru sýnin tekin með nálarstungum um húð á milli pungs og endaþarmsops, en það er yfirleitt gert í svæfingu eða mænudeyfingu. Ekki er hægt að greina krabbamein með ómskoðun einni sér, en hún er notuð til að athuga hvort aðrar ástæður geta legið að baki PSA-hækkunar.
Hverjir eru helstu annmarkar á notagildi PSA við skimun fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli?
Ekki er víst að snemmbúin greining á krabbameini í blöðruhálskirtli minnki líkur á að deyja úr sjúkdóminum. Við skimun getur PSA-mæling auðveldað greiningu á litlum æxlum sem ekki valda einkennum. Fundur lítilla æxla þarf þó ekki endilega að minnka líkur á að viðkomandi deyji úr sjúkdómnum. Sum æxli, sem finnast í kjölfar PSA-mælingar, eru svo hægvaxta að ólíklegt er að þau muni nokkurn tíma ógna heilsu viðkomandi. Greining æxla sem ekki eru lífshótandi kallast “ofgreining” (e. overdiagnosis) og meðferð slíkra æxla kallast “ofmeðhöndlun” (e. overtreament). Ofmeðhöndlun getur að óþörfu útsett menn fyrir hugsanlegum fylgikvillum og skaðlegum áhrifum meðferðar á krabbameini í blöðruhálskirtli, s.s. skurðaðgerð og geislameðferð. Á meðal aukaverkana eru þvagleki, óþægindi frá endaþarmi (niðurgangur, tíðar hægðir), stinningarvandamál og sýkingar. PSA-mæling getur gefið falsk-jákvæðar eða falsk-neikvæðar niðurstöður. Falsk-jákvæð niðurstaða er þegar PSA-gildið er hækkað en ekkert krabbamein er til staðar. Falsk-jákvæð niðurstaða getur valdið kvíða hjá manninum og fjölskyldu hans, og leitt til frekari rannsókna og aðgerða, s.s. sýnatöku úr blöðruhálskirtlinum, sem geta verið skaðlegar. Aukaverkanir af sýnatöku geta verið alvarlega sýkingar, sársauki og blæðing. Meirihluti manna með hækkað PSA-gildi er ekki með krabbamein – aðeins um 25% manna sem gangast undir sýnatöku úr blöðruhálskirtlinum reynast vera með krabbamein. Falsk-neikvæð niðurstaða fæst þegar PSA-gildið er lágt þrátt fyrir að krabbamein sé til staðar í blöðruhálskirtlinum. Falsk-neikvæð niðurstaða getur veitt manninum, fjölskyldu hans og lækninum falskt öryggi um að krabbamein sé ekki til staðar, þegar hann gæti hins vegar verið með sjúkdóm sem þarfnast meðferðar.
Hvaða rannsóknir eru til um skimun fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli?
Nokkrar stórar rannsóknir hafa verið framkvæmdar þar sem skimað hefur verið fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli. Ein sú stærsta er bandarísk rannsókn sem kallast PLCO (Prostate, Lung, Colorectal, and Ovarian Cancer Screening Trial – skimað fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli, lungum, ristli og eggjastokkum), sem bandaríska krabbameinsstofnunin NCI framkvæmdi til að meta hvort ýmis skimunarpróf gætu fækkað dauðsföllum af völdum nokkurra algengra krabbameina. Metið var hvort PSA-mæling og þreifing á blöðruhálskirtli gætu minnkað líkur karla á að deyja úr krabbemeini í blöðruhálskirtli. Rannsóknin sýndi að menn sem fóru í árlega skimun voru líklegri til að greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli en menn í samanburðarhópi, en dánartíðni af völdum sjúkdómsins var hin sama í báðum hópunum. Rannsóknin bendir til að margir karlmenn sem hlutu meðferð við krabbameini í blöðruhálskirtli hefðu aldrei greinst með sjúkdóminn hefðu þeir ekki farið í skimun, og þeir hafi því að óþörfu verið útsettir fyrir hugsanlegum aukaverkunum meðferðar. Í annarri stórri rannsókn, hinni evrópsku ERSPC (European Randomized Study of Screening for Prostate Cancer), var dánartíðni af völdum krabbameins í blöðruhálskirtli borin saman hjá tveimur hópum (valið var í hópana með slembiúrtaki), þar sem annar hópurinn var skimaður en hinn hópurinn ekki. Ólíkt PLCO sýndi þessi rannsókn hins vegar að menn sem gengust undir skimun voru síður líklegir til að deyja af völdum krabbameins í blöðruhálskirtli. Starfshópur á vegum bandarískra heilbrigðisyfirvalda (United States Preventive Services Task Force) skoðaði niðurstöður þessara rannsókna (og nokkurra annarra) og komst að þeirri niðurstöðu, að í hópi 1,000 karlmanna á aldrinum 55-69 ára, sem væru skimaðir á 1-4 ára fresti í 10 ár myndi:
0-1 dauðsfalli af völdum krabbameins í blöðruhálskirtli vera forðað.100-120 menn myndu fá falsk-jákvæða niðurstöðu PSA-mælingar og gangast undir sýnatöku úr blöðruhálskirtli, og um þriðjungur manna sem gangast undir sýnatökuk myndu fá a.m.k. í meðallagi slæmar aukaverkanir og óþægindi eftir sýnatökuna.110 menn myndu greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli. Af þeim myndu 50 fá aukaverkanir af völdum meðferðar – þar af myndu 29 fá stinningarvandamál, 18 þvagleka, 2 alvarlegan hjarta- og æðasjúkdóm, 1 myndi fá blóðtappa í fætur eða lungu, og tæplega 1 (!) myndi deyja af völdum meðferðar.
Lykilatriði
PSA-prófið mælir magn PSA í blóði, en PSA er prótein sem er framleitt í blöðruhálskirtlinum. Því hærra sem PSA-gildið er, þeim mun meiri líkur eru á að krabbamein sé til staðar í blöðruhálskirtlinum. Hins vegar geta verið aðrar skýringar á hækkuðu PSA-gildi, og sumir karlar með krabbamein í blöðruhálskirtli hafa ekki hátt PSA-gildi.PSA-mæling hefur verið notað til að skima fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli. Það er einnig notað til að fylgjast með körlum sem hafa greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli til að sjá hvort krabbameinið sé að koma aftur eftir meðferð eða hvort það svari þeirri meðferð sem beitt er.Efasemdir eru um ágæti PSA-mælingar til að skima fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli, því hugsanlegur ávinningur af slíkri skimun er lítill en áhættan/óþægindi geta verið töluverð.
Heimild: National Cancer Institute
Opmerkingen