top of page

Margir karlmenn ofmeðhöndlaðir

Laufey Rún Tryggvadóttir prófessor hefur ásamt öðrum rannsakað hvernig má með betri hætti greina krabbamein í blöðruhálskirtli. Of oft eru gerðar óþarfar aðgerðir.

Því miður má segja að verið sé að skera menn upp að óþörfu. Vandinn er sá að meirihluti karlmanna yfir fimmtugu er með sofandi krabbamein í blöðruhálskirtlinum. Þetta veit fólk ekki almennt því hugtakið sofandi mein er tiltölulega nýlegt í sambandi við krabbamein. Það kemur á óvart að raunveruleg krabbamein geti verið sofandi og þar af leiðandi meinlaus,“ segir Laufey Tryggvadóttir, klínískur prófessor við læknadeild og framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár Krabbameinsfélags Íslands.


Stærstur hluti meina sefur

Víða um heim hafa vísindamenn reynt að finna leiðir til að greina lífsógnandi krabbamein í blöðruhálskirtli frá þeim sem eru sofandi. Blöðruhálskirtilskrabbamein er algengasta krabbameinið hjá körlum. Um 80% þessara meina eru staðbundin og þá er gjarnan gripið til róttækrar meðferðar svo sem skurðaðgerðar. En stærstur hluti staðbundnu meinanna mun sofa í líkamanum án þess að valda skaða. Þar sem ekki eru enn til aðferðir til að greina þau frá þeim sem eru lífshættuleg eru margir karlmenn ofmeðhöndlaðir. Stór hluti karlmanna sem gangast undir aðgerð þarf að glíma við lífsgæðaskerðingu vegna alvarlegra aukaverkana sem koma til vegna viðkvæmrar staðsetningar kirtilsins. Dæmi um algengar aukaverkanir eru langvarandi þvagleki og risvandamál. Laufey hefur ásamt syni sínum Tryggva Þorgeirssyni og vísindamönnum frá Harvard birt niðurstöður nýrrar rannsóknar þar sem opnað er á nýja möguleika til að greina milli sofandi og lífsógnandi meina. „Sá sem fékk hugmyndina upphaflega var Tryggvi, sem er læknir og hefur lokið lýðheilsunámi frá Harvard-háskóla. Tryggvi fékk styrk til rannsóknarinnar frá krabbameinsfélaginu Framför sem var stofnað af Oddi Benediktssyni, en hann lést af völdum blöðruhálskirtilskrabbameins fyrir nokkrum árum og var afar kröftugur liðsmaður í baráttunni við krabbamein.“ Hugmyndin að nýju rannsókninni kviknaði í kjölfar niðurstaðna Krabbameinsfélagsins og Landspítalans sem birtust árið 2007. „Við sýndum í fyrsta sinn í heiminum fram á að mönnum sem eru með BRCA2 stökkbreytingu vegnar mun verr en öðrum körlum ef þeir fá krabbamein í blöðruhálskirtil. Fyrir þessa menn er mjög mikilvægt að fara frá tiltölulega ungum aldri í svokallaðar PSA-mælingar og fá róttæka meðferð ef þeir greinast, því þar er ekki um sofandi mein að ræða,“ útskýrir Laufey. „Þótt meirihluti karla fái sofandi mein virðist það vera sjaldgæft eða kannski ekki gerast ef þeir eru með stökkbreytt BRCA2 gen, en um 0,8% Íslendinga fæðast með stökkbreytinguna og framleiða þar af leiðandi minna af BRCA2 próteininu í vefjum sínum en gengur og gerist.“


BRCA2 genið verndar okkur

Nýja rannsóknin byggir á þessari vitneskju þótt hún snúi að mönnum sem ekki eru með stökkbreytingu í BRCA2 geninu. „Hið merka BRCA2 prótein gegnir mikilvægu hlutverki við að vernda okkur gegn krabbameinum. Fyrst menn sem höfðu arfgenga tilhneigingu til að framleiða minna af því höfðu slæmar horfur, þá gekk nýja rannsóknin út á að kanna hvort breytileiki í magni próteinsins í vef nýgreindra sjúklinga gæti spáð fyrir um horfur. Það reyndist rétt vera, því magn og staðsetning próteinsins spáði fyrir um framgang sjúkdómsins hjá sjúklingum sem ekki voru með stökkbreytingu.“ Niðurstöðurnar opna fyrir möguleika á að nota mælingu á próteininu til að greina milli sofandi og lífsógnandi meina. „Nú erum við að undirbúa framhaldsrannsókn, til að fylgja niðurstöðunum eftir og auka forspárgildið, í samstarfi við vísindamenn á Landspítala og við Læknadeild Háskóla Íslands.“


Grein eftir Laufey Rún Tryggvadóttur prófessors í Fréttablaðinu 5. mars 2016 - https://www.visir.is/paper/fbl/160305n.pdf

18 views0 comments

Comments


bottom of page