Gísli Örn Lárusson, einn mest áberandi athafnamaður Íslendinga á áttunda og níunda áratug síðustu aldar var gestur Sigmundar Ernis í Mannamáli í gærkvöld, en Gísli söðlaði um og fékk nóg af því að græða peninga þegar líða fór að aldamótum.
Þáttinn má sjá hér á hringbraut.is, en í áhrifaríku samtali þeirra Sigmundar Ernis kemur fram að Gísli greindist með krabbamein í blöðruhálsi í ársbyrjun 2013, en tókst sjálfur á við meinið með aðferðum sem hann taldi duga - og viti menn, meinið lét undan; hann blandaði saman frankincense-olíu og efninu curcumin sem hann hafði grun um gæti til samans hjálpað honum í baráttunni við krabbann og það gekk eftir sem fyrr segir, fjórum mánuðum eftir að hann greindist sögðu læknar honum að engin merki fyndust í líkama hans um vágestinn.
Eftir þessa uppgötvun lét hann viðurkennd fyrirtæki rannsaka áhrifin af efnablöndunni og fékk það síðar staðfest að hún gerði sitt gagn. Gísli stofnaði fyrirtækið Omnicure til að fylgja þessum árangri eftir og hefur nú hafið framleiðslu á efninu í hylkjum undir heitinu omnione sem fyrirtækið Parlogis í Reykjavík sé um dreifingu á: "Fyrst þetta hjálpaði mér vil ég hjálpa öðrum," segir Gísli í þættinum þar sem farið er yfir fjölbreyttan feril Gísla.
Hann tilheyrir norsku Ellingsen-ættinni, sem upphaflega voru evrópskir gyðingar, en móðir hans er Astrid Ellingsen og faðir hans Lárus Bjarnason Sighvatssonar Bjarnasonar, eins fyrsta bankastjóra Íslands og bissnesinn átti eftir að verða lífsstarf Gísla lengst af framan af. Hann starfaði fyrst hjá Almennum tryggingum frá 1971, stofnaði svo Reykvíska endurtryggingu stuttu síðar og rak hana uns hann leiddi Skandia inn á íslenskan tryggingamarkað árið 1990 sem þá var fimmti stærsti tryggingasali í Evrópu, en Skandia var á meðal fyrstu erlendu fjárfestanna í sínum ranni hér á landi.
Straumhvörf urðu í lífi Gísla um miðjan áttunda áratug síðustu aldar þegar tveggja ára dóttir hans veiktist af mislingum og virtist sem engin lyf eða meðferð gætu læknað hana af asma og lungnabólgu sem á eftir fylgdu, en Gísli dvaldi hjá dóttur sinni á spítala um tveggja vikna skeið á meðan þess var freistað að halda henni á lífi. Unga telpan náði sér, en þessi erfiða lífsreynsla kenndi Gísla að efnishyggjan skiptir ekki öllu máli í lífinu - og smám saman eftir þetta leitaði hugur hans á ný mið.
Um tíma var hann mikill drykkjumaður eins og hann á kyn til, svo sem fram kemur í þættinum, en hann breytti líka þar um lífsstíl og tók þátt í uppbyggingu SÁÁ og smíði sjúkrahússins að Vogi með þáverandi félaga sínum, Björgólfi Guðmundssyni.
Mannamál eru frumsýnd öll sunnudagskvöld klukkan 20:30, en þeir sem vilja kynna sér enn frekar efnablönduna sem Gísli segir að hafi læknað sig af krabba geta leitað upplýsinga á vefslóðinni www.omnicure.com.
Hringbraut 09. nóvember 2015
Áhugaverð grein.