top of page

Kynlíf og kyngeta karla með krabbamein í blöðruhálskirtli

EFALÍTIÐ velta margir, sem enn eru í blóma lífsins, fyrir sér hvernig kynlífi þeirra verði háttað er aldurinn færist yfir. Þrátt fyrir opinskáar umræður um kynlíf undanfarna áratugi hefur lítið verið fjallað um kynlíf aldraðra. Yfir þeim þætti hvílir ákveðin dulúð, enda er gamalt fólk af þeirri kynslóð sem ekki hefur slík mál í flimtingum.

EFALÍTIÐ velta margir, sem enn eru í blóma lífsins, fyrir sér hvernig kynlífi þeirra verði háttað er aldurinn færist yfir. Þrátt fyrir opinskáar umræður um kynlíf undanfarna áratugi hefur lítið verið fjallað um kynlíf aldraðra. Yfir þeim þætti hvílir ákveðin dulúð, enda er gamalt fólk af þeirri kynslóð sem ekki hefur slík mál í flimtingum. Niðurstöður rannsóknar krabbameinslækningadeildar Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi á kynlífi sænskra karla 50-80 ára sviptir hulunni að nokkru leyti af leyndardómnum. Rannsóknin var gerð af Ásgeiri R. Helgasyni, sálfræðingi, en hann leggur stund á framhaldsnám í heilsusálfræði, starfar við kynlífsráðgjöf og vinnur að doktorsverkefni í læknavísinum við krabbameinslækningadeild Karolinska sjúkrahússins. Rannsóknin er liður í doktorsverkefninu og beindist að aukaverkunum blöðruhálskirtilskrabbameins með áherslu á að meta áhrif þeirra á líðan sjúklinganna og finna leiðir til úrbóta. Markmiðið er jafnframt að varpa ljósi á hversu algengt og mikilvægt kynlíf er fyrir karlmenn á þessum aldri til að hægt sé að átta sig betur á tíðni aukaverkana af meðferð og áhrifa þeirra á kynlífið. Hafa löngun og getu og lifa virku kynlífi Ásgeir segir rannsóknina óvenjulega að því leyti að hún taki til kynlífs karla upp að áttræðu og ennfremur að hún sé sú fyrsta sinnar tegundar sem byggist á handahófskenndu úrtaki 319 karla í Stokkhólmi, en ekki sjálfboðaliðum eða ákveðnum hópum karla. "Niðurstöðurnar hafa vakið athygli og verða senn birtar í alþjóðlegu læknatímaritunum British Journal of Cancer og Age and Ageing . Ef til vill kom mest á óvart að í ljós kom að flestir karlarnir töldu kynlíf afar mikilvægt, þeir höfðu bæði löngun og getu og lifðu flestir virku kynlífi. Þótt heildarniðurstaðan sýndi að kynlíf gegndi mikilvægara hlutverki í lífi karlanna en talið hefur verið, var töluverður munur milli einstaklinga. Einn af hverjum þremur körlum 70-80 ára hafði samfarir a.m.k. einu sinni í mánuði meðan jafnstór hópur hafði ekki haft samfarir í eitt ár eða lengur. Allmargir höfðu áhyggjur af að missa kyngetuna í kjölfar meðferðar við blöðruhálskirtilskrabbameini og helmingur karlanna kaus að hafa oftar samfarir, en sagði rekkjunauta sína ekki eins fúsa og þá til slíkra athafna." Aðspurður hvort kynhvöt aldraðra kvenna væri þá ekki í samræmi við kynhvöt jafnaldra þeirra af kyni karla sagði Ásgeir að rannsóknin virtist styðja þá kenningu, a.m.k. hjá konum yfir sjötugt. Hann sagði að sambærileg rannsókn á kynlífi aldraðra kvenna væri hafin í Svíþjóð í tengslum við rannsóknir á leghálskrabbameini og krabbameini í móðurlífi, en niðurstaðna yrði ekki að vænta fyrr en eftir eitt til tvö ár. Á að meðhöndla meinið? "Blöðruhálskirtilskrabbamein er algengasta krabbamein meðal karla á Íslandi og í Svíþjóð. Ýmislegt bendir til að meðferð, sem felst í að nema meinið burt með skurðaðgerð eða beita geislum til að drepa krabbameinsfrumurnar, lengi ekki líf karla með staðbundið blöðruhálskirtilskrabbamein. Vissar rannsóknir benda til þess að allt að 80% karla með staðbundið mein séu á lífi 10 árum eftir greiningu með eða án meðferðar. Ástæðan er talin vera sú að meðalaldur þeirra sem greinast með meinið er nokkuð hár, eða um 70 ár og eins vex meinið oft mjög hægt. Undanfarið hefur færst í aukana að meðhöndla ekki staðbundið blöðruhálskirtilskrabbamein ef sjúklingum er umhugað um að halda kyngetu sinni, enda er minnkandi kyngeta auk vandamála við þvaglát og hægðir helstu fylgikvillar meðferðar." Til marks um hversu kynlíf er ríkur þáttur í lífi karlanna, sem þátt tóku í rannsókninni, sögðust 20% ekki myndu gangast undir meðferð ef miklar líkur væru á að kyngetan minnkaði miðað við 80% líkur á að vera ofar moldu eftir tíu ár frá meðferð. 40% karlanna sögðust fara í slíka meðferð ef sannað væri að hún yki lífslíkur þeirra um a.m.k. tíu ár og 40% sögðu að einu gilti hvort kyngetan minnkaði ef meðferðin yki lífslíkurnar. Ásgeir sagði að kynlíf aldraðra hefði löngum verið undarlega mikið feimnismál, ekki aðeins hjá þeim öldruðu heldur líka hjá þeim sem yngri eru. "Vonandi eru viðhorfin að breytast og mönnum að verða ljóst að kynlíf á gamals aldri er eðlilegt og ekkert til að skammast sín fyrir." Valgerður Þ. Jónsdóttir


120 views0 comments

Comments


bottom of page