Samkvæmt krabbameinsskrá er blöðruhálskirtilskrabbamein algengasta krabbameinið hjá íslenskum körlum og um þriðjungur nýgreindra krabbameina á Íslandi.
Blöðruhálskirtillinn er staðsettur neðan við þvagblöðruna hjá körlum og hefur hlutverki að gegna við framleiðslu sæðisvökvans. Illkynja vöxtur krabbameinsins hefst í kirtlinum sjálfum en getur – ef það nær að þroskast nægjanlega lengi – farið að vaxa út fyrir hýði hans eða jafnvel dreifa úr sér til nærliggjandi eitla eða annarra líffæra.
Orsakir og áhættuþættir
Orsakaþættir eru ekki að fullu þekktir en greinleg tengsl eru við hækkandi aldur og jákvæða ættarsögu. Þá er grunur um að umhverfisþættir og lífsstíll komi við sögu – mikil neysla á mettuðum dýrafitum og mjólkurafurðum er talin auka líkur á blöðruhálskirtilskrabbameini en neysla á t.d. tómötum, sojaafurðum og grænu tei gæti verið verndandi.
Einkenni
Í byrjun er meinið gjarnan einkennalaust en nái það að vaxa og þroskast geta einkenni komið fram. Staðbundin einkenni frá kirtlinum geta t.d. lýst sér í breytingum á þvaglátum, t.d. tregðu og slappri bunu en einnig tíðum og bráðum þvaglátum. Nái meinið að dreifa sér um aðra líkamshluta eru einkennin hins vegar oft almenns eðlis, t.d. minnkuð matarlyst, megrun, slappleiki, þreyta og úthaldsleysi en einnig verkir, t.d. í beinum.
Uppvinnsla og rannsóknir
Læknir ræðir við sjúkling, fær lýsingu á mögulegum einkennum og kannar ættarsögu. Að því búnu er sjúklingur skoðaður. Með endaþarmsþreifingu er leitað að hnútum eða herslum í kirtlinum og gjarnan er athugað hvort þvagflæði sé með eðlilegum hætti sem og blöðrutæming. Þá pantar læknir sjúklings blóðprufur þar sem mælt er svokallað PSA (Prostate Specific Antigen) en þetta er efni sem myndast í frumum kirtilsins og losnar út í blóðrásina. Hækkun á gildi þessu getur gefið til kynna meinsemd í kirtlinum en getur þó einnig hækkað af öðrum ástæðum.
Vakni grunur um illkynja meinsemd í blöðruhálskirtli er oftast mælt með vefjasýnatöku frá kirtlinum. Ómstauti er komið fyrir í endaþarmi, staðdeyft og síðan tekin á bilinu 8-12 stungusýni. Liggur vefjagreining oftast fyrir u.þ.b. 7-10 dögum síðar.
Leiði vefjaniðurstöður í ljós að um krabbamein sé að ræða eru gjarnan pantaðar myndgreiningarrannsóknir. Er þar um að ræða annars vegar tölvusneiðmynd af brjóst- og kviðarholi og hins vegar svonefnt beinaskann þar sem skimað er eftir fjarmeinvörpum.
Meðferð
Meðferð blöðruhálskirtilskrabbameins veltur mjög á stigi og alvarleika sjúkdómsins. Er þá átt við annars vegar hversu árásargjarnar sjálfar krabbameinsfrumurnar virðast vera – þar sem svokölluð Gleason gráða er notuð – og hins vegar hvort sjúkdómurinn sé vaxinn út fyrir hýði kirtilsins og/eða farinn að dreifa sér til annarra hluta líkamans.
Sé sjúkdómurinn staðbundinn – þ.e. bundinn við blöðruhálskirtilinn og ekki farinn að dreifa úr sér til fjarlægra hluta líkamans – er markmið meðferðarinnar að lækna sjúklinginn af meinsemdinni. Hér er í grundvallaratriðum um þrenns konar nálgun að ræða:
1. Virkt eftirlit. Finnist krabbameinið einungis í litlu magni í þeim sýnum sem tekin hafa verið og sé vefjagráðan hagstæð kemur þessi nálgun til greina. Er þá beðið með eiginlega meðferð en í staðinn fylgst náið með sjúklingi. Læknir sjúklings skoðar hann með reglulegu millibili, þreifar á blöðruhálskirtli, endurtekur blóðprufur, sýnatökur úr kirtlinum og/eða myndgreiningarrannsóknir. Sé sjúkdómurinn stöðugur heldur eftirlitið áfram með sama hætti en sé útlit fyrir að krabbameininu vaxi ásmegin breytast plönin og virk meðferð (sjá neðan) er skipulögð.
2. Skurðaðgerð. Hér er skurðaðgerð beitt til að fjarlægja kirtilinn í heild sinni ásamt sáðblöðrum. Hér á landi er beitt svokölluðum aðgerðarþjarka eða róbot sem gerir skurðlækninum kleift að nema á brott kirtillinn með kviðarholsspeglun þar sem gerð eru nokkur lítil göt á kviðarholið. Sjúklingar útskrifast af sjúkrahúsi degi eftir aðgerð og eru hafðir með þvaglegg í u.þ.b. 1 viku. Alvarlegir fylgikvillar svo sem blæðingar, sýkingar og þvagleki eru sjaldgæfir en skert holdris í kjölfar aðgerðar algengara.
3. Geislameðferð. Tvenns konar nálgun kemur til greina: 1) Ytri geislameðferð sem er algengari nálgun. Hér er jónandi geislum beint að kirtlinum að utan og inn á við. 2) Innri geislameðferð þar sem geislavirkum kornum er komið fyrir innan kirtilsins með ómstýrðri tækni af mikilli nákvæmni. Hvort sem um ræðir er markmiðið að drepa krabbameinsfrumurnar með geislunum og lækna sjúklinginn.
Í öllum ofangreindum tilvikum þarf sjúklingur að vera í eftirliti hjá sínum lækni í kjölfar meðferðar. Eftirlitið felst einkum og sér í lagi í endurteknum blóðprufum, PSA mælingum – þar sem skimað er fyrir mögulegri endurkomu krabbameinsins – en einnig í meðferð eða ráðleggingum við þeim fylgikvillum sem mögulega geta komið upp á.
Sé um að ræða dreifðan sjúkdóm, þ.e.a.s. krabbamein með meinvörpum í fjarlægum líkamshlutum er unnt að halda sjúkdóminum í skefjum. Grunnmeðferðin byggir á því að minnka magn karlhormónsins testósteróns í blóðinu – svokölluð hormónahvarfsmeðferð – annað hvort með hormónasprautum eða með lítilli skurðaðgerð þar sem eistun eru fjarlægð. Reynist þessi meðferð ekki duga kemur til greina notkun krabbameinslyfja og/eða nýrra hormónalyfja sem komið hafa fram í dagsljósið á undanförnum árum og reynast oft vel.
Comments