top of page

Hvernig getur krabbamein bætt lífið?


Það vill enginn fá krabbamein Krabbamein er eitt af því sem enginn vill upplifa og það er skelfilegt áfall að fá fréttir af því að greinast. Ég fékk fyrir nokkrum árum greiningu um krabbamein og þetta var eins og hávær vekjaraklukka frá hinu venjulega sjálfsagða lífi og ámynning um að skoða stöðuna, hvar ég væri staddur, hvað ég hefði, hvað ég hefði upplifað og hverjar mínar raunverulegu langanir í lífinu væru. Allt í einu sá ég lífið og tilverum í allt öðru ljósi og fór að meta mitt umhverfi á allt annan veg. Hvernig getur krabbamein bætt lífið? Þegar leit til baka, þá hafði ég sem betur fer ekki verið alslæmur og hafði upplifað góð tengsl við mitt fólk og mikla hamingju. Ég fór að hugsa um hvar ég væri staddur og hvað ég hefði í kringum mig. Allt í einu var ekkert sjálfsagt og nýir þættir að skipta meira máli. Svo merkilegt sem það er, þá finnst mér í dag að hafa fengið krabbamein hafi verið mitt mesta lán í lífinu. Það sem mér finnst merkilegast er að ég skyldi þurfa að upplifa krabbamein til að átta mig á grundvallaratriðunum í lífinu og hvað raunverulega skipti mig mestu máli. Að ég þyrfti að fá krabbamein til að ég áttaði mig á því að minn æðsti draumur hefði þegar orðið að veruleika og gefið mér margar og góðar hamingjustundir í lífinu. Draumur sem margir hafa, en þurfa bara að vakna eins og ég, til átta sig á að hafa þegar upplifað hann. Hver þekkir það ekki að hafa átt sér draum og langað til að hann rættist? Alla langar að upplifa drauminn sinn? Sumir nenna því bara ekki, aðrir þora því ekki og hinir eru kannski bara hræddir við að draumurinn rætist og að hann verði ekki eins spennandi og þeir héldu. Ég átti mér ekki bara einn draum og þetta snérist oftast um að eignast eithvað, fara eithvað, gera eithvað eða upplifa eithvað. Þessir draumar komu og fóru og skiptu kannski ekki miklu máli þegar fram liðu stundir. Ef ég skoða hlutina af alvöru, þá rættist minn stærsti draumur án þess að ég tæki eftir því. Ég er kannski núna fyrst að gera mér grein fyrir því að það hafi gerst. Hver var draumurinn sem ég upplifði án þess að taka eftir honum? Þetta er draumurinn um það sem skiptir svo miklu máli eða samband við ástina mína í lífinu, börnin mín og barnabörnin. Þessi draumur hafði verið að rætast á hverjum degi í áratugi, en samt einhvern vegin án þess að ég gerði mér í alvöru grein fyrir því. Þetta var allt í föstum farvegi og mér fannst sjálfsagt að hafa þetta allt. Upplifðu og skapaðu breytingu á lífinu án þess að fá krabbamein Það eru ekki allir eins farsælir og ég að fá tíma til að skoða stöðuna og fá góðan tíma eftir meðferð til að endurskoða lífið. Þess vegna ættu allir að gefa sér það að upplifa lífið í alvöru eins og ég fékk, án þess að fá krabbamein og líta í alvöru inn á við um það hvernig sig langi raunverulega að lifa lífinu. Mitt krabbamein var lán fyrir mig, vegna þess að ég fékk framlengingu til að framkvæma mína uppstokkun á lífinu. Krabbameinið skilaði mér raunverulegri sýn á mig sjálfan, hver ég væri og hvað mig langaði að gera. Hjá mér birtist þetta í því að vilja miðla öðrum af allri þessari miklu hamingju sem ég hafði upplifað og ég hef núna í mörg ár unnið að því að leggja grunn að umhverfi til að koma þessu á framfæri. Að fara í nám í markþjálfun var hluti af þessu, að ræða við Hugó Þórisson sálfræðing var hluti af þessu, að vera í sambandi við öflugan markþjálfa í Bretlandi var hluti af þessu, að taka þátt í fjölda netfunda og netnámskeiða til Bandaríkjanna var hluti af þessu, að uppgötva Thomas Gordon var hluti af þessu, samstarfið við samstarfsfólkið mitt í Gordon í tvö ár var hluti af þessu og árið 2018 verður minn tími til að hefja velferð breytinga fyrir sem flesta í hringum mig.

Grein eftir Guðmund G. Hauksson

26 views0 comments

コメント


bottom of page