Upphafið á sölunni á nælu Bláa trefilsins markast alltaf af árlegri göngu í Heiðmörk og að þessu sinni var gengið sunnudaginn 6. nóvember kl. 14:00. Þessi ganga er til að undirstrika slagorð félagsins og Bláa trefilins "þú gengur aldri einn" og eru skilaboð til karla sem greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli um að við séum öll með þeim í þessu verkefni.
Fólk kom saman á Borgarstjórnarplaninu og það mættu yfir 50 manns í gönguna á öllum aldri eða frá átta ára til áttræðs. Það skemmtilega var að mikið var um fjöskylduhópa þar sem amma, afi, börn og barnabörn gengu saman. Fararstjórar þetta árið voru Auður Jóhannsdóttir og Björn Björnsson frá Fjallafjöri, en þau eru mjög fróð um Heiðmörkina og þá fallegu náttúru sem þar er að finna.
Auður farastjóri byrjaði á að taka fólkið í hring og þar kynntu allir sig með nafni. Hún fór yfir ferðina og sýndi hana a skiltinu við upphaf göngu. Hún sagði að Björn frá Fjallafjöri mundi ganga aftastur og sjá um að enginn heltist úr elstinni. Síðan var gangan hafin og fyrsta stopp var inn í litlum trjálundi með einhverjum hæstu trjám í Heiðmörk. Áhugavert hvernig maður var allt í einu svo lítill við að horfa upp í trjátoppana.
Næsta stopp var við trjákubbana þar sem fólk reyndi sig við hálfdrættin, fullþroska og fleiri trjákubba. Þarna skemmtu ömmur, afar og foreldra sér við að horfa á börnin reyna sína krafta við að lyfta þessum misstóru trjábolum. Auður stýrði þessu og allir skemmtu sér vel.
Næsta stopp var við sólúrið, en þar sem engin sól var gátum við ekki staðfest réttan tíma. Gaman að nefna að tímahringurinn samanstóð ekki af tölum heldur setningum eins og dagmál, hádegi, nón og fleirum.
Gangan í heild var um 5,6 kílómetrar og það mátti sjá að að göngunni lokinni að sumur voru orðnir þreyttir á meðan aðrir hefðu líklega verið til í aðra fimm kílómetra. Að lokinni göngu var boðið upp á kakó og kleinur.
Comments