top of page

Ísetning gullkorna í blöðruhálskirtil


Til að geta gefið háa geislaskammta í meðferð við krabbameini í blöðruhálskirtli þarf að staðsetja geislasvæðið af nákvæmni. Þrjú gullkorn á stærð við hrísgrjón eru sett í blöðruhálskirtilinn til að fá nákvæma staðsetningu, en þau sjást betur á röntgenmynd en sjálfur blöðruhálskirtillinn. Gullkornin verða í kirtlinum til frambúðar og valda ekki óþægindum. Undirbúningur fyrir aðgerð Láta þarf lækni vita ef:

  1. blóðþynningarlyf eru tekin (t.d. Kóvar)

  2. blæðingartilhneiging er til staðar

  3. sjúkdómur er í hjartalokum eða aðgerð verið gerð á þeim

  4. ofnæmi er fyrir lyfjum Til að minnka hættu á sýkingu þarf að taka sýklalyf fyrir og eftir aðgerð. Rafrænn lyfseðill verður sendur og hægt er að sækja lyfin í hvaða apótek sem er.

Aðgerðardagur Mæta á göngudeild þvagfæra 11A á 1. hæð Landspítala við Hringbraut. Í aðgerðinni er blöðruhálskirtillinn deyfður og gullkornin sett í hann með þremur litlum stungum. Aðferðin er svipuð þeirri sem notuð var við sýnatökuna en flestir upplifa minni óþægindi af ísetningu gullkornanna. Aðgerðin er gerð í gegnum endaþarm og tekur um fimmtán mínútur. Eftir aðgerðina getur borið á óþægindum frá grindarbotni. Einnig getur vottur af blæðingu gert vart við sig frá þvagrás og endaþarmi í nokkra daga. Hægt er að fá innlegg í buxur í apótekum. Kostnaður Greiða þarf fyrir aðgerðina. Verð er samkvæmt gjaldskrá Landspítala. Símanúmer Göngudeild þvagfæra 11A á 1. hæð Landspítala við Hringbraut er opin virka daga kl. 8-16, sími 543 7100. Utan þess tíma má hafa samband við bráðamóttöku í Fossvogi í síma 543 2000 Hafa skal samband við göngudeild þvagfæra 11A eða bráðamóttöku ef:

  • verkir eru viðvarandi

  • hiti er hærri en 38,5°C

  • þvagtregða gerir vart við sig

ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI SKURÐLÆKNINGASVIÐ JÚLÍ 2016 SKURÐ-648 ÁBYRGÐARMENN: YFIRLÆKNIR ÞVAGFÆRASKURÐLÆKNINGA OG DEILDARSTJÓRI 11A HÖNNUN: SAMSKIPTADEILD


Sjúklingum og aðstandendum er velkomið að hringja á deildina ef spurningar vakna. Vinsamlegast athugið að sjúkrahúsið getur ekki borið ábyrgð á peningum eða öðrum verðmætum svo sem símum, tölvum o.fl. sem sjúklingar eða aðstandendur hafa meðferðis. Athygli er vakin á því að starfsfólk og nemendur sjúkrahússins eru bundin þagnarskyldu og mega því ekki ræða við þig eða aðra um málefni sjúklinga á deildinni. Við viljum vinsamlegast biðja þig og aðstandendur þína að ræða ekki það sem þið kunnið að verða vitni að eða heyra um aðra sjúklinga. Landspítali er kennsluspítali og nemendur í heilbrigðisfræðum og tengdum greinum stunda hluta af námi sínu á spítalanum. Nemendur fylgjast með og taka þátt í daglegri meðferð sjúklinga og eru alltaf á ábyrgð og undir handleiðslu leiðbeinenda sinna.




98 views0 comments

Comments


bottom of page